Bjarni Karlsson

Menntun og störf

Ég lauk embættisprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands haustið 1990 og var þá vígður til að starfa jöfnum höndum sem fangaprestur og æskulýðsprestur í Laugarneskirkju. Þá var ég 27 ára. Ári síðar var ég kjörinn sóknarprestur í Vestmannaeyjum og starfaði þar ásamt Jónu Hrönn Bolladóttur, konu minni, um sjö ára skeið uns ég var valinn til starfa fyrir Laugarneskirkju þar sem ég þjónaði söfnuðinum í sextán ár.

Árið 2007 lauk ég meistaraprófi í siðfræði kynlífs og hjónabands frá guðfræðideild Háskóla Íslands og á bilinu 2010 – 2012 sat ég í Velferðarráði Reykjavíkur. Vorið 2020 varði ég doktorsrannsókn á sviði siðfræðinnar sem fjallar um fátækt og vistkerfisvanda á heimsvísu. Um þessar mundir er ég að ganga frá nýrri bók á sviði sálgæslu og siðfræði sem ætluð er hinum almenna lesanda og fjallar um rannsóknarefni mitt; fátækt og vistkerfisvanda í víðu samhengi.

Sálgæsla

Ég lærði það snemma á starfsferlinum að hver einasta persóna sem ég mæti í sálgæslu er kennari minn. Fólk er viturt og aldrei erum við vitrari en þegar okkur þykir eins og við vitum ekkert, þegar erfiðleikar hrannast upp og við erum hætt að sjá samhengi í eigin lífi. Einmitt þá stendur sál okkar opin fyrir nýjum upplýsingum, reiðubúin að gera uppgötvanir sem bæta lífið. Það eru mínar sælustu stundir í starfi þegar ég verð vitni að því að einstaklingar, pör eða heilu hóparnir koma auga á lausnir. Þegar nýr sannleikur fæðist fram og fólk getur haldið áfram lífi sínu í betra ljósi. Í þessum skilningi er starf sálgætis eins konar fæðingjarhjálp, ljósmóðurstarf.

Stofan okkar heitir Haf og nafngjöfin felur í sér ótal skýrskotanir. Hafið er ekki síður gjöfult en ögrandi. Þeir fiska sem róa, segja menn; það sama gildir á hafi sálarinnar. Sá sem leggur á djúpið aflar sér reynslu og þekkingar. Kannski má líkja sálgæslutíma við það að fara í veiðitúr með vönum manni. Þá er hafið ekki síður farvegur en farartálmi og á siglingunni breytir það stöðugt um ásýnd. Vanur sjófarandi virðir mátt hafsins, storkar ekki öflum þess heldur fer með gát. Öryggi hans byggir á því að hann þekkir aðstæður og kann rétt viðbrögð.

Eins má segja að sálgæsluþjónusta prests snúist um speglun. Prestur meðhöndlar engan og segir engum hvað gera skuli heldur lánar hann sjálfan sig sem spegil í samtalinu svo að viðkomandi geti séð eigið líf skýrar eða í stærra samhengi. Í raun lánar presturinn augu sín og eyru þann tíma sem viðtalið varir með það að markmiði að viðmælandinn geti notað eigin skynsemi og innsæi til að sjá nýja fleti á tilverunni.

Sálgæsla getur verið átakasöm en hún er alltaf ljúf. Hún getur snúist um alvarleg málefni en samt er alltaf stutt í bros og hlátur. Það er vegna þess að prestleg sálgæsla byggir á góðum grun — okkur grunar að allt kunni að fara vel. Við höfum á tilfinningunni að betri tímar séu framundan og erum ekki frá því að bjartsýni sé raunsæ afstaða í hverju máli. Þarna er trúin og vonin sem presturinn talar ekki um að fyrra bragði en viðmælandinn veit á hvaða grundvelli hann stendur og þegar það á við er bænin aldrei langt undan.

Notandi þjónustunnar stendur jafnfætis prestinum. Presturinn er þó bundinn trúnaði um allt sem fram fer í viðtalinu skv. lögum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna á meðan viðmælandinn er það ekki.

Önnur prestsþjónusta

Enn sem fyrr er ég reiðubúinn að annast útfarir, hjónavígslur, skírnir og önnur prestsverk.

Verðskrá

  • Viðtal á stofu: 20.000 kr.
  • Þjónusta vegna útfarar: 120.000 kr.
  • Hjónavígsla: 60.000 kr.
  • Skírn: 35.000 kr.

Fyrirlestrar og úrvinnslufundir

Auk sálgæslu og almennrar prestsþjónustu annast ég gjarnan úrvinnslufundi með starfsmanna- og vinahópum eða fjölskyldum þar sem áföll hafa dunið á eða samskipti farið úr skorðum. Jafnframt flyt ég erindi um ýmis efni sem varða daglegt líf fólks. Þessi þáttur í starfi mínu hefur farið vaxandi og þótt form, fjöldi og tímalengd sé misjöfn má segja að helstu málefni sem ég hef fjallað um séu eftirfarandi:

Meðvirkni: Hvernig má hætta meðvirkni og hafa gaman af því?
Hjónasæla: Ást og áföll í langtímasamböndum.
Sorgarúrvinnsla: Sorgin gleymir engum – hvernig skánar manni?
Kynlíf: Helstu einkenni góðra kynferðislegra samskipta í ljósi #MeToo.
Reiðistjónun: Um eðli reiði og ofbeldis og leiðir til að taka ábyrgð

Fátækt og vistkerfisvandi: Hvers vegna hættir okkur mannfólki til að skaða hvert annað og eigið umhverfi?

Trúfræðsla: Hvaða erindi á kristin trú við samtíma okkar?

Bókanir

Bókanir fara fram í síma 820-8865, en jafnframt má senda fyrirspurnir á tölvupóstfangið bjarni@hafsal.is.